{Gudni tudar } spacer
spacer
spacer
powered by blogger

{þriðjudagur, nóvember 28, 2006}

 
Frábærir þættir

Ég er orðinn gjörsamlega "hooked" á þáttunum Prison Break á Stöð2. Ég missti af fyrstu (fyrri?) þáttaröðinni en ég er alveg dottinn inn í þessa þáttaröð. Þetta heldur mér alveg föstum fyrir framan sjónvarpið og nú er svo komið að loksins á mér sér uppáhalds-vikulegt-sjónvarpsefni.

Þar sem ég sá ekki 1. þáttaröðina hef ég ekki samanburðinn og get því ekki tjáð mig um hversu útþynnt þetta er orðið, en mér finnst það einhvern veginn ekki - þá hlýtur 1. serían að hafa verið andskoti góð.

posted by Gudni E. 16:49


{miðvikudagur, nóvember 22, 2006}

 
Danski kúrinn

Nú er maður í heilmiklu átaki. Ákvað í haust að skella mér á danska kúrinn og það verður að segjast eins og er að þetta gengur mjög vel. Er kominn niður fyrir 80 kg, sennilega í fyrsta sinn í um fimm ár. Það besta er að mér tókst að draga pabba með í þetta og við styðjum hvorn annan í þessu. Erum búnir að missa tæp 20 kg samtals.

posted by Gudni E. 13:10


{föstudagur, nóvember 17, 2006}

 
Árni Johnsen

Ef fólk flettir orðinu siðblindur þá sér það mynd af Árna. Sama gerist ef orðinu hrokafullur er flett upp. Sama gerist einnig ef flett er upp orðunum umburðarlyndi og víðsýni. Nei annars. Það er lygi. Við hliðina á orðinu lygari kæmi aftur á móti upp mynd af Árna Johnsen.

Í ljósi þessa alls finnst mér kostulegt að Sjálfstæðismenn skuli hafa kosið þennan mann í prófkjöri flokksins í öruggt þingsæti. Ég hélt að þessir tímar væru liðnir. Greinilegt að Sjálfstæðismenn eru fljótir að gleyma. Nema að heimska spili þar inn í. Sem gæti alveg verið eins líklegt. Árni Johnsen er maður sem kemur hlutunum í verk- kemur hreyfingu á hlutina. Margir hafa sagt það um hann. Vissulega lætur Árni til sín taka, en hann tekur líka til sín. Hluti sem hann á ekki. Það er verra. Og ófyrirgefanlegt í ljósi hvaða embætti maðurinn gegndi. Svo birtust fréttir í sumar (eða var það í haust?) að maðurinn hafi hlotið sakaruppgjöf hjá forseta Íslands. Vitleysan heldur áfram. Glanstímaritin, vikuritin og dagblöðin kepptust svo við að taka við hann viðtöl. Mála hann sem einhverskonar Maríu mey. Búinn að hreinsa sig að innan og sættast við yfirboðara sinn. En það sem Árni hreinsaði í burtu á sínum tíma var bara það mikið - og lygarnar sem fylgdu í kjölfarið - að ég mun ekki fyrirgefa þetta.

Svona illt innræti hverfur ekki. Siðblinda.

Mun fylgjast náið með framvindu mála.

posted by Gudni E. 10:31


{miðvikudagur, nóvember 08, 2006}

 
Jæja

ÉG hef mikið verið að velta fyrir mér að segja þessu bloggi lokið í bili, en er kominn á þá skoðun frekar að segja þessu blogg-leysi loknu í bili.

Ég ýst við að ástæðan fyrir æ færri bloggum hjá undirrituðum sé sú að nú, einhverja hluta vegna, hef ég minni tíma fyrir mér en ég hafði áður. Ætla að skýla mér bakvið þá ástæðu um sinn. Það er alveg á hreinu og hefur alltaf verið þannig, að ég blogga ekki til að blogga. Ég geri ykkur, lesendum mínum (sem fer þó ört fækkandi býst ég við), það ekki að blogga um hvernig ég eyddi hverri mínútu dagsins. Þið getið skoðað svoleiðis blogg hjá fermingastelpum.

Af nógu er að taka þessa dagana. Ummæli Magnúsar Þórs um innflytjendamál hafa vakið ótrúlega mikil viðbrögð og ég get skilið það. Tel Frjálslynda vera stefnulausan flokk sem tínir upp "hitamálin" hjá þjóðinni og gerir þau að sínum. Þeir eru að nokkru leyti býsna snjallir - fá hellings umfjöllun og það gerir víst öllum gott, hvort sem hún er góð eða slæm.
Ég hef oft hugsað með mér að þessi fjöldi innflytjenda sé ekki endilega af hinu slæma, en ríkið verður að tryggja að aðlögun þeirra að lífinu hér sé góð og gangi fljótt fyrir sig. Annars er hætt við að á þetta fólk verði litið sem 2. flokks þegna og þá erum við í vandræðum.

Lifið heil

posted by Gudni E. 14:42


{föstudagur, september 22, 2006}

 
Eru ekki allir með?

posted by Gudni E. 09:28


{föstudagur, september 08, 2006}

 
Jæja.

Við erum sem sagt komin heim frá Danmörku, það var hreint út sagt æðislega gaman. Nenni samt ekki að tala of mikið um það því að það er jú tæpur mánuður síðan...

Fólk kvartar yfir því við mig að ég sé latur að blogga. Það er alveg rétt. Mér finnst ég bara ekki hafa frá neinu merkilegu að segja eins og er. Jú, víst er ég kominn í vinnu og farinn að kenna, gæti bloggað um það og svo er körfuboltavertíðin að fara að byrja, gæti líka bloggað um það, en ég nenni því ekki.
Ekki núna.

Skal lofa samt bót og betrun. Samt erfitt þegar vinir manns eru staddir í sama hyldýpi bloggleysisins og ég. Nenna ekki að blogga um neitt.

Kveð að sinni.

posted by Gudni E. 11:39


{föstudagur, ágúst 04, 2006}

 
Góóóóðan dag!

Það er spurning um að fara að blása lífi í glæðurnar hér, eftir aaansi langa fjarveru frá ritvellinum. Ég verð þó að fá að afsaka mig með því að þegar maður er fjarri netsambandi og ég tala nú ekki um tölvu í sex vikur, þá er nú ansi erfitt að vera virkur bloggari.

Við Lovísa vorum sem sagt að vinna bæði þarna í sumardvöl SLF á Laugarlandi og ég verð að segja að þetta er sennilega eitt af því skemmtilegasta sem hægt er að vinna við. Reyndar eins gott að þetta er bara 6 vikna tími því maður var alveg búinn á því eftir þessa törn. Lovísa lenti reyndar í ýmsum óþægilegum hlutum, vægast sagt. Í lok 2. viku fékk hún pest og þegar hún var nýbúin að jafna sig á því lenti hún í því að fara úr olnbogalið, sem er eitthvað það ógeðslegasta sem ég hef séð, svei mér þá. Með því var vinnan í Laugalandi í raun búin hjá henni, enda í gifsi í 10 daga eftir það og svo tók við hvíld fyrir handlegginn. Hún fór svo norður í Skagafjörðinn til að vinna við sumarbúðir Rauða Krossins í eina viku, eins og hún hafði ráðið sig til. (Hún missti þannig í raun bara af 2,5 vikum í Laugalandi af 5).

Annars er rosalega gott að upplifa í 1. sinn (sennilega) að vera í sumarfríi. Það þýðir þó ekki að maður ætli að sitja aðgerðarlaus á meðan, þvert á móti. Í vikunni eftir að við lukum störfum fórum við í hringferð með mömmu og pabba. Aðalmarkmiðið var að sjá framkvæmdina við Kárahnjúka áður en vatninu verður hleypt á þarna. Það hefur nefnilega alltaf verið ætlunin hjá okkur feðgunum að fara svona feðgaferð að skoða Kárahnjúka og svæðið í kring, en við féllumst á að leyfa Lovísu og mömmu að koma með.

Menn geta rifist um það fram og til baka um plúsa og mínusa framkvæmdanna, en ég er allavega enn á þeirri skoðun að þetta sé í góðu lagi. Það var ekkert þarna sem mér fannst vera nauðsynlegt að vernda, mikil eyðilönd uppi á hálendinu. Svo er fólk að tala um að mikið landssvæði fari undir vatn, sem er reyndar rétt, en þetta landssvæði er bara ekkert svo einstakt. Fólk talar um að miklar ,,náttúruauðlindir" hverfi en ég segi á móti: ef Landsvirkjun hefði ekki virkjað, hver hefði þá farið þangað nema örfáar hræður? Hver vissi um þetta landssvæði?

Um daginn heyrði ég fólk tala um blessuð hreindýrin, þau yrðu svo illa fyrir barðinu á þessu. Vá! Er ekki allt í lagi?? Í 1. lagi þá fara hreindýrin annað (það er jú í eðli dýra að laga sig að breyttum aðstæðum) og í 2. lagi þá hefur varla nokkur maður ánægju af þessum skepnum, nema kannski örfáir veiðimenn.

Landsvirkjun hefur sýnt það á þeim stöðum þar sem virkjað hefur verið að vel er hugsað um svæðin eftir að framkvæmdum lýkur. Á Kárahnjúkum verður engin breyting þar á. M.a.s. er rætt um að við mörk virkjunarsvæðisins verði þjóðgarður og vegirnir sem LV hefur lagt þarna upp eru til þess fallnir að auka umferð almennings um svæðið og býður upp á mikla möguleika í ferðamannaþjónustu.

Kostirnir fyrir Austfirði eru náttúrulega svo óteljandi að það tekur því ekki að vera að byrja að telja þá upp..

Magni Rockstar?

Ég verð að segja að Magni er bara að koma mér skemmtilega á óvart. Held svei mér þá að hann muni amk. enda í topp 3, ef ekki bara vinna þetta hreinlega. Sýnist þeir fíla hann í tætlur og það er bara gott mál.

Við erum að fara til Danmerkur á sunnudag.
Verðum í viku.

posted by Gudni E. 09:02

spacer